Dagleg dauðsföll af völdum Covid-19 í Evrópu eru um fimm sinnum færri en þau voru í fyrstu bylgju faraldursins í mars og apríl. Yfirmaður WHO í Evrópu segir þrátt fyrir það að ekki sé tilefni til bjartsýni.
Síðasta sólarhringinn greindust yfir 149.000 ný tilfelli veirunnar í Evrópu, eða 9.000 fleiri en daginn áður og yfir 40.000 fleiri en greindust tveimur dögum fyrr. Dánartíðni hefur þó lækkað.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Hans Kluge, yfirmanni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Evrópu, að ástæða þess að dauðsföllum hefur ekki fjölgað í sama hlutfalli við staðfestar sýkingar og var í fyrstu bylgju vera þá að ungt fólk sé tekið að greinast með Covid-19 í meira mæli. Það er ólíklegra til að deyja af völdum sjúkdómsins en eldra fólk.
Spálíkön um framvindu faraldursins í Evrópu mála þó svarta mynd af því sem gæti orðið, samkvæmt Kluge. Hann telur að ef ríkisstjórnir álfunnar muni slaka á samkomutakmörkunum og öðrum sóttvarnaskilyrðum geti það leitt til þess að dánartíðni af völdum Covid-19 mun allt að fimmfaldast miðað við það sem var í mars og apríl.

Hann segir hins vegar að bjarga mætti um 281.000 mannslífum fram að febrúar næstkomandi með grímunotkun 95% fólks og öðrum sóttvarnaráðstöfunum, svo sem fjarlægðartakmörkunum. Þá hefur BBC eftir Kluge að ríkisstjórnir verði að hafa í huga að heimilisofbeldi og slæm áhrif á geðheilsu geti verið fylgifiskar samkomutakmarkana, útgöngubanna og annarra sóttvarnaaðgerða.
Kalla eftir samhæfingu í smitrakningu
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur farið þess á leit við ríkisstjórnir aðildarríkja sinna að þau bæti nú í viðbragð sitt við faraldrinum. Sérstaklega er þeim ráðlagt að samhæfa sig í smitrakningu og undirbúa dreifingu bóluefnis, en faraldurinn hefur verið í sókn í Evrópu undanfarnar vikur og fjöldi ríkja hert aðgerðir.
Í Tékklandi hefur skólum og krám verið lokað, en þar hefur fjöldi staðfestra smita hátt í tvöfaldast í október og og hafa tæplega 145.000 sýkst af Covid-19 þar í landi.
Fyrr í dag yfirgaf Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, fund á vegum Evrópusambandsins eftir að einn í starfsliði hennar greindist með veiruna. Hún er nú í einangrun og segir það vera varúðarráðstöfun, þar sem hún hafi farið í sýnatöku en ekki greinst með kórónuveiruna.
