Handbolti

Lið Stefáns Rafns lá í Portúgal | Aba­lo snéri aftur til Parísar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luc Abalo sneri aftur til Parísar í kvöld.
Luc Abalo sneri aftur til Parísar í kvöld. EPA-EFE/GEIR OLSEN

Þrír leikir fóru fram í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld. Ungverska stórliðið Pick Szeged tapaði 19-25 fyrir Porto á útivelli. Þá sneri franska goðsögnin Luc Abalo aftur til Parísar er Elverum heimsótti Paris Saint-Germain. 

Hornamaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson lék ekki með ungverska stórliðinu Pick Szeged er liðið sótti Porto heim í Portúgal. Porto er með einkar sterkt lið og vann á endanum sex marka sigur. Lokatölur 25-19 og ljóst að sóknarleikur ungverska liðsins var ekki til útflutnings í kvöld.

Var þetta aðeins annar leikur Pick Szeged í riðlinum en liðið hefur tapað þeim báðum. Porto hefur hins vegar leikið fjóra leiki, unnið tvo og tapað tveimur.

Franski hornamaðurinn Luc Abalo var mættur til Parísar er lið hans, Elverum frá Noregi, heimsótti franska stórliðið Paris Saint-Germain í kvöld. Abalo lék með PSG frá 2012 til 2020 þegar hann færði sig óvænt um set til Noregs.

Hinn 36 ára gamli Abalo skoraði fjögur mörk fyrir Elverum en PSG voru töluvert sterkari aðilinn í kvöld. Danska skyttan Mikkel Hansen var markahæstur hjá PSG með átta mörk og fór það svo að franska liðið vann sex marka sigur, lokatölur 35-29.

Var þetta fyrsti sigur PSG í þremur leikjum í keppninni. Elverum hefur einnig unnið einn leik af þremur.

Þá vann Vardar góðan fimm marka sigur á Flensburg á heimavelli. Lokatölur í Norður-Makedóníu 31-26 Vardar í vil. Var þetta fyrsta tap Flensburg sem er í 2. sæti A-riðils með þrjá sigra í fjórum leikjum. Vardar hefur nú unnið einn og tapað einum af þeim tveimur leikjum sem liðið hefur leikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×