Innlent

Aflétta rýmingu fyrir Gilsá 1 og 2

Sylvía Hall skrifar
Annar angi skriðunnar teygði sig á milli Gilsár I og Gilsár II.
Annar angi skriðunnar teygði sig á milli Gilsár I og Gilsár II. Vísir/Tryggvi

Áhætta á svæðinu við Hleiðargarðsfjall í Eyjafirði hefur minnkað og hefur verið tekin ákvörðun um að aflétta rýmingu sem var í gildi fyrir bæina Gilsá 1 og Gilsá 2, auk sumarbústaðar við Gilsá 2. Stærðarinnar skriða féll í fjallinu á þriðjudaginn 6. október og hefur svæðið verið vaktað síðan. 

Bæjarhóll við Gilsá 2 kom í veg fyrir að skriðan næði til hússins líkt og sjá má í fréttinni fyrir neðan. 

Aðstæður voru metnar í gær af sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Veðurstofu Íslands. Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að ákvörðun um að aflétta rýmingu hafi verið tekin í kjölfar fundar með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Náttúrufræðistofnun, Veðurstofunni og ábúendum á bæunum. 

„Aðstæður eru metnar þannig að eftir mikinn snjóavetur og leysingar sumarsins er líklegt að óvenju mikið vatn hafi safnast fyrir í urðinni sem hafi valdið háum grunnvatnsþrýstingi og átt þátt í því að hluti urðarinnar í Hleiðargarðsfjalli rann fram,“ segir í tilkynningunni.

Engar merkjanlegar breytingar hafa orðið í eða við skriðusárið síðan á föstudag samkvæmt tilkynningunni en búist er við því að laust efni geti fallið á svæðinu. Veðurstofa Íslands mun áfram fylgjast með svæðinu næstu daga þrátt fyrir að rýming sé ekki enn í gildi. 

Hér að neðan má sjá myndband sem Birgir H. Arason, bóndi í Gullbrekku, tók þegar hann fylgdist með skriðunni falla.


Tengdar fréttir

Telja enn hættu á ferðum í Eyjafirði

Lögreglan á Norðurlandi eystra og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun hafa metið aðstæður á staðnum og er svæðið vaktað.

Aur skríður enn fram í Eyjafirði

Aur skríður enn fram eftir að stór skriða féll í Hleiðargarðsfjalli ofan við bæinn Gilsá 2 í Eyjafirði í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×