Körfubolti

Segir að LeBron sé besti leikmaður allra tíma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James með NBA-bikarinn og Bill Russell bikarinn sem er veittur besta leikmanni úrslitanna.
LeBron James með NBA-bikarinn og Bill Russell bikarinn sem er veittur besta leikmanni úrslitanna. getty/Mike Ehrmann

LeBron James varð í nótt NBA-meistari í fjórða sinn þegar Los Angeles Lakers sigraði Miami Heat, 106-93. James var valinn besti leikmaður úrslitanna en þetta er í fjórða sinn sem hann fær þessi verðlaun og með þriðja liðinu sem er met.

Eftir leikinn í nótt hrósaði Frank Vogel, þjálfari Lakers, LeBron í hástert og gekk svo langt að segja að hann væri besti leikmaður sögunnar.

„Ég hef alltaf trúað á LeBron James. Hann er besti leikmaður sem körfuboltaheimurinn hefur séð. Þú fattar það kannski ekki fyrr en þú vinnur með honum á hverjum degi,“ sagði Vogel.

„Þú þjálfar hann og sérð hvernig hann hugsar, hvernig hann aðlagast og leiðir liðið áfram. Þú heldur að þú vitir það en veist það ekki. Það hefur verið merkileg reynsla að þjálfa hann og sjá hann taka þetta lið sem komst ekki í úrslitakeppnina í fyrra og fara með það í draumalandið. Hann var frábær allt tímabilið og ég get ekki hrósað honum nægjanlega mikið.“

Í leiknum í nótt var LeBron með þrefalda tvennu; 28 stig, fjórtán fráköst og tíu stoðsendingar. Í úrslitaeinvíginu var hann með 29,8 stig, 11,8 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

LeBron varð meistari með Miami Heat 2012 og 2013, Cleveland Cavaliers 2016 og bætti svo fjórða meistaratitlinum með þriðja liðinu í safnið í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×