Þeir Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Joe Biden, mótframbjóðandi hans, munu mætast í kappræðum í beinni útsendingu í nótt. Mikill meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum segist ætla að horfa en sérfræðingar og greinendur eru sammála um að kappræðurnar muni í raun litlu breyta. Nema Trump eða Biden misstígi sig verulega.
Níu af hverjum tíu sem segjast ætla að kjósa Trump, telja að hann muni standa sig betur. Um það bil sama hlutfall kjósenda Biden eru sannfærð um að hann muni standa sig betur, samkvæmt könnun Politico.
Í greiningu miðilsins segir berum orðum að kappræður skipti ekki máli. Kannanir og sagan sýni það vel. Kannanirnar sýna að það eru mjög fáir óákveðnir kjósendur eftir í Bandaríkjunum. Heilt yfir hefur fylgi þeirra Trump og Biden lítið hreyfst. Þá eru mun færri óákveðnir en áður og kannski sérstaklega 2016.
Biden mælist enn með töluvert forskot á Trump á landsvísu. Spálíkan tölfræðimiðilsins FiveThirtyEight gefur Biden 78 prósent líkur á því að bera sigur úr býtum.
Eins og kosningakerfi Bandaríkjanna er sett upp, geta þó tiltekið fá atkvæði í sérstökum ríkjum skipt miklu máli og vonast frambjóðendurnir til að fá stuðning þeirra fáu óákveðnu sem eftir eru.
Horfa til að styðja sinn mann
Fréttamenn NBC eru ekki jafn sannfærðir og kollegar sínir hjá Politico um gagnsleysi kappræðna. Vísa þeir sérstaklega til þess að gengi frambjóðenda gæti haft góð eða slæm áhrif á kjörsókn. Þeir vísa þó til lítils annars.
„Forsetakappræður skipta minna máli en fólk heldur. Kjósendur horfa ekki til að komast að niðurstöðu um hvern þeir ætla að kjósa. Þeir horfa til að styðja þann sem þeir styðja,“ sagði prófessor í stjórnmálafræði við NBC.
Blaðamenn AP fréttaveitunnar segja þar að auki að kappræðurnar í kvöld gætu mögulega verið síðasta tækifæri Trump til að ná tökum á kosningabaráttunni, eins og hann gerði árið 2016. Þá stýrði hann umræðunni að miklu leyti en þetta árið hefur hann alls ekki náð á flug.
Árásir Trump á Biden hafa að mestu leyti misst marks og bandamenn Trump hafa margir hverjir lýst því yfir í einrúmi að þeir séu ósáttir við það hvernig Trump hafi haldið á kosningabaráttunni.
Hingað til hafi baráttan snúist um lítið annað en Trump sjálfan og hvernig hann hefur staðið sig í starfi. Þeir segja forsetanum hafa mistekist að beina athyglinni nægjanlega að Biden.
Hann gæti fengið tækifæri til þess í nótt. Biden fær á hinn bóginn tækifæra til að lumbra á Trump með mörgum umdeildum málum sem að honum snúa. Þar á meðal þess að fleiri en 200 þúsund hafa dáið vegna Covid-19 í Bandaríkjunum og nýlegra upplýsinga um viðskiptaveldi forsetans.
Hægt verður að fylgjast með kappræðunum hér. Þær hefjast klukkan eitt í nótt, að íslenskum tíma.