„Ætti Haukur Páll að sleppa þessum leikjum gegn Blikum?“ spurði Guðmundur Benediktsson, léttur í bragði, þegar farið var yfir athyglisverða staðreynd um Hauk Pál Sigurðsson í Pepsi Max stúkunni í gær.
Haukur Páll hefur ítrekað farið meiddur af velli í leikjum gegn Breiðabliki, eða í það minnsta ekki náð að klára 90 mínútur, og honum var skipt af velli á 72. mínútu í 1-1 jafnteflinu við Blika á sunnudagskvöld.
„Haukur Páll er reyndar almennt frekar óheppinn leikmaður. Hann hefur lent í því oftar en flestir að þurfa að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Mjög oft eru það höfuðhögg. En hann er aldrei eins óheppinn og gegn Breiðabliki,“ sagði Sigurvin Ólafsson, sérfræðingur í Pepsi Max stúkunni. Hér að neðan má sjá mínúturnar sem Haukur hefur spilað í leikjunum tveimur við Breiðablik hvert sumar síðustu ár.
„Fjórum sinnum fer hann út af í fyrri hálfleik, og tvisvar í hálfleik, og alls átta sinnum út af. Í gær [fyrrakvöld] fór hann meiddur út af,“ benti Sigurvin á en innslagið má sjá hér að neðan.