„Valgeir nánast henti þessum leik í ruslið fyrir Valsmenn,“ sagði Hjörvar Hafliðason um rauða spjaldið sem Valgeir Lunddal Friðriksson fékk gegn Breiðabliki í gær.
Rauða spjaldið fór tvívegis á loft, með skömmu millibili í seinni hálfleik, þegar Valur og Breiðablik gerðu 1-1 jafntefli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í gær. Hjörvar og Kjartan Atli Kjartansson hrósuðu dómaranum Vilhjálmi Alvari Þórarinssyni í hástert fyrir hans störf í leiknum.
Rauða spjaldið fór fyrst á loft eftir háskalegt brot Davíðs Ingvarssonar á Hauki Páli Sigurðssyni.
„Davíð veður þarna með sólann á undan sér og er heppinn að hitta ekki Hauk sem hoppar upp úr tæklingunni,“ sagði Kjartan Atli í Pepsi Max tilþrifunum á Stöð 2 Sport. „Það er ekkert við þessu að segja,“ tók Hjörvar undir.
Engin ástæða til að vaða í manninn
Valgeir fékk gult spjald eftir ryskingar í kjölfar brotsins hjá Davíð:
„Gult spjald sem átti eftir að reynast dýrkeypt. Fáránlegt, því það var engin ástæða til að vaða í leikmanninn þarna. Vilhjálmur Alvar [Þórarinsson, dómari] var með þetta alveg upp á 10 og var að fara að reka hann [Davíð] út af,“ sagði Hjörvar, en Valgeir fékk svo seinna gula spjaldið sitt strax í kjölfarið fyrir brot á Brynjólfi Willumssyni:
„Svo fer Brynjólfur illa með hann, Valgeir tosar í hann, fær annað gult spjald og rautt. Hárrétt, og Valgeir Lunddal nánast henti þessum leik í ruslið fyrir Valsmenn. Sem betur fyrir hann var það gamli maðurinn í hægri bakverðinum sem bjargaði honum,“ sagði Hjörvar, en Birkir Már Sævarsson jafnaði metin í 1-1 á síðustu stundu, eftir að Róbert Orri Þorkelsson hafði komið Breiðabliki yfir.