Sport

AS segir UEFA með hugmyndir um Meistaradeildina: Einn leikur í 8-liða úrslitunum og úrslitahelgi í Istanbúl

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr fyrri leik Real Madrid og Man. City í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
GETTY

Spænski miðillinn AS greinir frá því að UEFA muni á morgun koma fram með þær hugmyndir sem þeir huga að sé best fyrir Meistaradeild Evrópu sem og Evrópudeildina. Forráðamenn knattspyrnuhreyfingarinnar munu þá funda.

Fótboltinn í flest öllum löndum í heiminum er nú kominn í pásu næstu vikurnar en á morgun mun UEFA koma fram með sínar hugmyndir. Þær eru meðal annars að einungis einn leikur verður í átta liða úrslitum beggja keppna.

Sá leikur mun þá annað hvort fara á hlutlausum velli eða dregið um hvort liðið fái heimaleik. Um undanúrslitin og úrslitin hafði UEFA hugsað sér að spila hálfgerða úrslitahelgi; undanúrslitin og úrslitin fara fram í borginni þar sem úrslitaleikurinn á að fara fram.

Leikirnir myndu þá fara fram með fjögurra til fimm daga millibil. Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar yrði í Istanbúl en Evrópudeildin í Gdansk. Meistaradeildin á að klárast 30. maí en Evrópudeildin 27. maí.

Það verður einnig til umræðu á fundinum á morgun hvað eigi að gera við EM. Þar verður endanleg ákvörðun tekin um umspilssleiki Íslands gegn Rúmeníu sem á að fara fram þann 26. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×