Það hefur ekki verið mikið að gera hjá heiðursræðismanni Íslands í Andorra en hann fagnar því ákaft að nú sé loksins Íslendingur fluttur til landsins.
Körfuknattleiksmaðurinn Haukur Helgi Pálsson gekk í raðir Morabanc Andorra í sumar, en liðið spilar í spænsku úrvalsdeildinni. Samkvæmt miðlinum El Principat í Andorra er Haukur þar með fyrstur Íslendinga til að eiga lögheimili í Andorra.
Gabriel Espelleta, heiðursræðismaður Íslands, mun vera afar kátur yfir þessum tímamótum og hefur óskað eftir því að fá að hitta Hauk. Það ætti heldur betur að geta gengið eftir því íslenski landsliðsmaðurinn segist glaður vilja hitta Espelleta.
Would be happy to meet and touch elbows https://t.co/SnJ51zKnvs
— Haukur Helgi Palsson (@haukurpalsson) September 22, 2020
Haukur byrjaði tímabilið með liði Andorra vel en hann nýtti öll skot sín og skoraði níu stig er liðið vann Ucam Murcia, 84-66, í fyrstu umferð. Hann mætir svo næst Martin Hermannssyni og félögum í Valencia á morgun kl. 17, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.