Heimsleikarnir í CrossFit fara fram út um allan heim í ár og keppendur gera æfingarnar sínar ekki á sama tíma.
Keppendur á heimsleikunum í ár koma frá sextán þjóðum út um allan heim og þar á meðal eru þrír þeirra frá Íslandi. Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson keppa hér heima á Íslandi en Katrín Tanja Davíðsdóttir gerir sínar æfingar á Austurströnd Bandaríkjanna.
Vegna kórónuveirunnar var ákveðið að hver keppandi munu gera æfingarnar á heimavelli og senda þær síðan í gegnum netið eftir ákveðnum reglum.
Fyrst þegar CrossFit samtökin gaf upp tímasetningar sínar þá sást strax að sá tími myndi ekki henta vel fyrir þá keppendur sem eru í Ástralíu, Asíu eða Evrópu.
Þessar tímasetningar sögðu hins vegar ekki alla söguna. CrossFit samtökin munu nefnilega taka tillit til tímamismunar hjá keppendum á heimsleikunum sem fá því að gera æfingar sínar á eðlilegum tíma á sínum stað.
Tímasetningarnar sem samtökin gáfu upp var aftur á móti tíminn sem frammistaða keppenda verður gerð opinber á miðlum CrossFit. Þangað til má íþróttafólkið ekki gefa neitt upp um hvaða árangri þau náðu í hverri æfingu.
Það er ljóst að keppendurnir í Ástralíu verða búnir með sínar æfingar þegar keppendurnir á Vesturströnd Bandaríkjanna byrja á sínum.
Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson þurfa því ekki að skila sínum æfingum seint um kvöld en þau fá hins vegar ekkert að vita um stöðu sína í heildarkeppninni fyrr en seint.
Það er því spurning hvort þau vaki yfir því á föstudagskvöldinu eða bíði með að fá að vita það þangað til daginn eftir. Keppninni lýkur síðan fyrr á laugardeginum.
Hver keppandi þarf að klára hverja æfingu fyrir ákveðinn tíma og má aðeins gera hana einu sinni.
CrossFit samtökin senda síðan út valdar æfingar og stöðu keppenda á ákveðnum tímum á bæði föstudag og laugardag. Þar verða æfingar íþróttafólksins ekki í beinni heldur sýndar eftir að þær hafa verið yfirfærðar og skráðar af dómurum samtakanna.