Minnst níutíu mótmælendur voru handteknir í Hong Kong í dag, sunnudag, eftir að til áttaka kom milli lögreglu og mótmælenda. Lögregla skaut meðal annars kúlum sem dýft hafði verið í piparsprey á mótmælendur sem eru ósáttir með ákvörðun stjórnvalda að fresta þingkosningum í Hong Kong.
Kosningarnar áttu að fara fram í dag, 6. september, en yfirvöld hafa frestað þeim um ár og segja það nauðsynlegt vegna fjölgandi kórónuveirusmita á svæðinu. Stjórnarandstaðan hefur sakað yfirvöld um að nýta sér faraldurinn sem skálkaskjól til að meina fólki að kjósa.
Mikil reiði hefur verið meðal stjórnarandstöðunnar eftir að kínversk öryggislög voru innleidd í sjálfstjórnarhéraðinu fyrir tilstilli Kommúnistaflokks Kína og ríkisstjórn Hong Kong. Stjórnarandstaðan vonaðist til að ná meirihluta á þinginu í kosningunum en aðeins er kosið um helming þingsæta í einu. Hin þingsætin sitja aðilar sem eru að mestu hliðhollir Kommúnistaflokknum.

Frestun kosninganna fer gegn stjórnarskrá Hong Kong bæði þar sem stjórnarskráin segir að hvert kjörtímabil megi ekki vera lengra en fjögur ár og vegna þess að hún segir að ekki megi fresta kosningum í meira en tvær vikur.
Eins og fyrr segir hafa minnst níutíu mótmælendur verið handteknir í dag og var aðgerðasinninn Tam Tak-chi, sem hefur orðið nokkuð þekktur stjórnarandstöðuaðgerðasinni, handtekinn sakaður um að hafa flutt ræður sem gætu vakið hatur og reiði í garð stjórnvalda.
Hann var handtekinn af lögreglu sem heldur uppi nýjum öryggislögum Kína í Hong Kong sem innleidd voru í júní og hefur glæpavætt ýmsar leiðir til pólitískrar tjáningar.