Íslenski boltinn

„Hefði ekki verið kjörið að hafa Sveindísi frammi á móti þessu miðvarðapari?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni í leik Breiðabliks og Selfoss á mánudaginn.
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni í leik Breiðabliks og Selfoss á mánudaginn. vísir/vilhelm

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, sérfræðingur Pepsi Max marka kvenna, hefði viljað sjá Þorstein Halldórsson, þjálfara Breiðabliks, nota Sveindísi Jane Jónsdóttur í fremstu víglínu í leiknum gegn Selfossi á mánudaginn. Selfyssingar unnu 1-2 sigur en þetta var fyrsta tap Blika í sumar.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, markahæsti leikmaður Pepsi Max-deildar kvenna, er í sóttkví og gat því ekki leikið með Breiðabliki gegn Selfossi. Rakel Hönnudóttir tók stöðu hennar sem fremsti maður Blika. Bára segir að það hefði verið vænlegra til árangurs að færa Sveindísi af hægri kantinum og í fremstu víglínu.

„Mig langar aðeins að setja spurningarmerki við uppleggið hans Steina. Hann var ekki Berglindi og ég velti fyrir mér hvort hún sé svona svakalega mikilvæg í þessu liði. En hefði þetta ekki verið kjörið tækifæri til að negla Sveindísi upp á topp?“ velti Bára fyrir sér í Pepsi Max mörkum kvenna í gær. Hún segir að Sveindís hefði hentað vel gegn miðvörðum Selfoss.

„Anna Björk [Kristjánsdóttir] og Áslaug Dóra [Sigurbjörnsdóttir] eru báðar sterkar og góðar að skalla en ekki hraðar. Hefði ekki verið kjörið að hafa Sveindísi frammi á móti þessu miðvarðapari og sjá hvort hún gæti sótt eitthvað? Steini hefur talað um að hann sé íhaldssamur og mögulega var hann of íhaldssamur þarna. Mér fannst þetta ekki virka.“

Sveindís er framherji að upplagi en hefur leikið á hægri kantinum hjá Breiðabliki í sumar með góðum árangri.

„Mér finnst svo mikilvægt fyrir hana að halda í þetta framherja „element“ í henni þótt hún sé að spila úti á kanti,“ sagði Bára. Mist Rúnarsdóttir tók í sama streng.

„Eins og hann [Þorsteinn] sagði í viðtali er ekkert undan Rakel að kvarta. En að sama skapi er Sveindís framherji og það er mikilvægt fyrir hana að finna að hún sé enn hugsuð þannig.“

Breiðablik er með tveggja stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Valur getur skotist á toppinn með sigri á Þór/KA í kvöld. Næsti leikur Breiðabliks er gegn ÍA í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn kemur.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um Sveindísi

Tengdar fréttir

„Ég var búin að ákveða að skora“

„Ég var búin að ákveða að skora. Ég var ekki búin að skora neitt í sumar og það kom loksins í dag,“ sagði hetja Selfyssinga, Barbára Sól Gísladóttir, rétt eftir að hafa skorað glæsilegt sigurmark gegn Breiðabliki í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×