Handbolti

Hættur við að hætta vegna Covid 19

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Raul Entrerrios, lykilmaður í spænska landsliðinu í handbolta til margra ára, ætlar að halda áfram að spila í eitt ár til viðbótar í kjölfar þess að Ólympíuleikunum var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Entrerrios verður fertugur í byrjun næsta árs en hann er liðsfélagi Arons Pálmarssonar hjá Barcelona og hefur verið í lykilhlutverki hjá Katalóníustórveldinu frá árinu 2010.

Hann hafði gefið út að hann hygðist leggja skóna á hilluna eftir ÓL í Tókýó og nú þegar leikunum hefur verið frestað um eitt ár hyggst Entrerrios endurskoða afstöðu sína. Hann kveðst þó ekki hafa rætt við vinnuveitendur sína hjá Barcelona.

„Það er allt stopp núna og heilsan kemur fyrst. Þegar við getum farið að snúa okkur aftur að handbolta mun ég setjast niður með þeim,“ segir Entrerrios.

Hann hefur unnið bæði HM og EM með Spánverjum en á enn eftir að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikum. Entrerrios er næstleikjahæsti leikmaður Spánverja frá upphafi og takist honum að halda áfram má slá því föstu að hann muni eigna sér leikjametið sem er nú í eigu David Barrufet.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×