Handbolti

Aron og félagar settu met í Meistaradeild Evrópu | Myndband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron og Stefán Rafn í leiknum í gær.
Aron og Stefán Rafn í leiknum í gær. Vísir/Getty

Landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í spænska stórliðinu Barcelona settu met í Meistaradeild Evrópu er liðið vann Pick Szeged með tveggja marka mun, 30-28, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í gær. Var það 13. sigur liðsins í Meistaradeild Evrópu í röð en Pick Szeged var síðasta liðið til að landa sigri gegn ógnarsterku liði Börsunga.

Í raun var ungverska liðið sterkari aðilinn framan af leik gærdagsins og stefndi í að liðið myndi stöðva ótrúlega sigurgöngu Arons og félaga. Spænsku meistararnir náðu hins vegar ótrúlegu 4-0 áhlaupi undir lok leiks sem tryggði þeim á endanum tveggja marka sigur og þar með metið en Pick Szeged skoraði ekki mark á síðustu fimm mínútum leiksins.

Leikurinn var sá slakasti á leiktíðinni hjá Barcelona sóknarlega í Meistaradeild Evrópu. Liðið skoraði úr aðeins 54% skota sinna í leiknum en það dugði þó til sigurs. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk í liði Barcelona en StefánRafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk í liði Pick Szeged.

Barcelona sigraði A-riðil með nær fullt hús stiga eða 26 stig af 28 mögulegum eftir að hafa tapað óvænt fyrir ungverska liðinu í fyrstu umferð keppninnar. Síðan þá hefur hver sigurinn á fætur öðrum komið í hús. Sigur í riðlinum þýðir að Börsungar eru komnir áfram í 8-liða úrslit á meðan Pick Szeged mætir ríkjandi Evrópumeisturum í Vardar í 16-liða úrslitum.

Vefsíðan Euro Handball greindi frá.

A-riðill Meistaradeildarinnar er sannkallaður Íslendingariðill en Aron leikur með Barcelona. Stefán Rafn er í liði Pick-Szeged sem endaði í 3. sætinu, þar á milli er Paris Saint-Germain í 2. sæti en Guðjón Valur Sigurðsson leikur með franska liðinu.

Þá leika þeir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon með Álaborg sem endaði í 5. sæti riðilsins. Þá leikur Sigvaldi Guðjónsson með Elverum sem endaði í 8. og síðasta sæti A-riðils.


Tengdar fréttir

Aron hafði betur í Íslendinga uppgjöri Meistaradeildarinnar

Barcelona vann nauman tveggja marka sigur, 30-28, á Pick-Szeged í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk í liði Pick-Szeged. Bæði lið eru þó komin áfram í 16-liða úrslit keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×