Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R., verður eflaust í hópi þeirra 20 áhorfenda sem mega mæta og horfa á leik Víkings við Fjölni í Pepsi Max-deild karla í Grafarvogi í kvöld.
Arnar tekur út leikbann í kvöld eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu í leiknum við Breiðablik á sunnudag, þegar útlit var fyrir að mark sem Blikar skoruðu fengi ranglega að standa. Markið var ekki dæmt gilt en Arnari var vísað upp í stúku.
Arnar verður væntanlega aftur í stúkunni þegar hann tekur út bannið í kvöld, en sóttvarnareglur gera það að verkum að afar fámennt verður í stúkunni. Tíu sæti eru í boði fyrir hvort félag og eru hugsuð til að mynda fyrir stjórnarmenn og leikmenn sem eru meiddir.
Í ljósi aðstæðna ætti Arnar auðvelt með að láta í sér heyra af áhorfendasvæðinu en það má hann þó ekki gera, segir Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar KSÍ. Reglur sambandsins kveði á um að þjálfari í banni megi ekki hafa áhrif á leikinn, eins og lokaorðin í meðfylgjandi broti úr reglugerð bera með sér:
Úr reglugerð um aga- og úrskurðamál:
13.7. Þjálfari eða forystumaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með einni klukkustund fyrir leik og þar til dómari hefur flautað til leiksloka. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt.
Auðveldara að greina brot en venjulega
Erfitt er að koma í veg fyrir að Arnar komi skilaboðum til sinna manna í gegnum Einar Guðnason aðstoðarþjálfara eða aðra sem verða á varamannabekk Víkings í kvöld, í gegnum síma. En láti Arnar í sér heyra í stúkunni, þannig að hann hafi áhrif á leikinn, gæti dómari eða eftirlitsmaður vísað málinu til aga- og úrskurðanefndar og Arnar hlotið frekari refsingu. Í raun er auðveldara að greina hvort Arnar gerist brotlegur í kvöld en í venjulegu árferði, þar sem hróp, köll og söngvar hundruða stuðningsmanna munu ekki heyrast.
Um er að ræða fyrsta leikinn í 13. umferð Pepsi Max-deildarinnar, en vegna frestana hafa Fjölnir og Víkingur leikið 10 leiki hvort lið. Víkingar geta með sigri farið upp fyrir ÍA og Fylki í 6. sæti deildarinnar og yrðu þá stigi á eftir Breiðabliki, KR og FH. Fjölnir er enn án sigurs á botni deildarinnar en getur komist upp að hlið Gróttu með sigri.
Leikur Fjölnis og Víkings R. hefst kl. 18 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.