Innlent

Tvær hraðasektir á tuttugu mínútum

Andri Eysteinsson skrifar
Hraðakstur dagsins kostaði ökumanninn 150.000kr.
Hraðakstur dagsins kostaði ökumanninn 150.000kr. Lögreglan

Erlendur ferðamaður var á það mikilli hraðferð um Suðurlandið í dag að í tvígang var hann stöðvaður fyrir hraðakstur.

Lögreglan á Suðurlandi greinir frá í facebook færslu. Segir þar að hraðakstur í umdæminu sé því miður alltof algengur og daglega séu ökumenn stöðvaðir fyrir slík brot. Til undantekninga heyri að sami ökumaður sé stöðvaður með nokkurra mínútna millibili.

Það hafi þó gerst í dag þegar erlendur ferðamaður var stöðvaður á ferð um Mýrdalssand á 134 kílómetra hraða. Þar sem hámarkshraði er 90 km/klst var ferðamaðurinn sektaður um 90.000 krónur sem gengið var frá á staðnum.

Réttum tuttugu mínútum síðar var sami bílstjóri stöðvaður á Suðurlandsvegi í Eldhrauni en þá á 117 kílómetra hraða. Gekkst ökumaðurinn að sektinni og greiddi 60.000 kr.

Ökumaðurinn er því 150.000 krónum fátækari eftir akstur um vegi Suðurlandsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×