Sport

Snorri sló heimsmeistara og ólympíumeistara við | Besti árangur Íslendings

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Einarsson náði sér í 13 heimsbikarstig í dag.
Snorri Einarsson náði sér í 13 heimsbikarstig í dag. vísir/getty

Snorri Einarsson náði besta árangri sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð á heimsbikarmóti þegar hann keppti á móti í Meråker í Noregi í dag. Mótið var hluti af Ski Tour sem tilheyrir heimsbikarmótaröðinni.

Keppt var í 34 km göngu með frjálsri aðferð og hópræsingu í dag. Snorri endaði í 18. sæti, meðal annars fyrir framan Livo Niskanen frá Noregi, ríkjandi ólympíumeistara í 50 km göngu, og Martin Johnrud Sundby frá Noregi, ríkjandi heimsmeistara í 15 km göngu. 

Ræst var eftir stöðu á heimslista og var Snorri því númer 47 í röðinni. Hann byrjaði hins vegar vel og náði að halda sér í fremsta hópnum og komst fljótlega upp um 15-20 sæti. Með því að enda svo í 18. sæti fær hann 13 heimsbikarstig og er samtals kominn með 17 heimsbikarstig, en einungis 30 efstu sætin gefa slík stig. Hann fær 31,64 FIS-stig og bætir sig á heimslista.

Snorri var sjónarmun á eftir næstu tveimur keppendum í mark, en alls einni mínútu og 48 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Alexander Bolshunov frá Rússlandi sem var langfyrstur.

Þetta var fjórða keppnin af alls sex á aðeins níu dögum á Ski tour. Snorri er í 24. sæti á mótaröðinni sem nú færist yfir til Þrándheims þar sem keppt verður í sprettgöngu á laugardag og 30 km eltigöngu með hefðbundinni aðferð á sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×