Sérstakur dómstóll, sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna, hefur sakfellt einn af þeim fjórum sem ákærðir voru fyrir aðild að morðinu á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, í Beirút árið 2005.
Salim Ayyash og hinir þrír, voru allir liðsmenn Hezbollah-hreyfingarinnar og hefur verið réttað yfir þeim í þeirra fjarveru frá árinu 2014, að því er fram kemur í frétt BBC. Morðið á Hariri vakti á sínum tíma mikla reiði í Líbanon og víðar.
Niðurstöðu dómstólsins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, en hann er kveðinn upp á þeim tíma er mikil óvissa ríkir í Líbanon í kjölfar sprengingarinnar í Beirút fyrr í mánuðinum og afsagnar ríkisstjórnar landsins sem fylgdi.
Fyrr í dag hafði verið greint frá því að engar sannanir séu fyrir því að forsvarsmenn Sýrlands eða Hezbollah-samtakanna hafi látið myrða Hariri, þó þessir aðilar hafi vissulega talið sig hagnast á dauða hans.
Dómsuppkvaðning dómstólsins hefur staðið yfir í Hollandi í morgun en dómurinn er heilar 2.600 blaðsíður að lengd.
Hariri var myrtur í sprengjuárás í Beirút árið 2005, en auk hans dó 21 til viðbótar og um 220 manns særðust. Miklu magni sprengiefna hafði verið komið fyrir í sendiferðabíl sem sprengdur var í loft upp er bílalest Hariri var ekið þar fram hjá.
Rafik Hariri var forsætisráðherra Líbanons á árunum 1992 til 1998 og aftur frá 2000 til 2004.