Handbolti

Sigvaldi tók stórt skref að titlinum

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði úr öllum skotum sínum í kvöld.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði úr öllum skotum sínum í kvöld. vísir/getty

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handbolta, er á góðri leið með að kveðja Elverum sem norskur meistari en lið hans Elverum vann í kvöld 33-30 sigur á Drammen í toppslag.

Sigvaldi lét að vanda til sín taka og skoraði úr öllum sex skotum sínum í leiknum. Óskar Ólafsson skoraði þrjú marka Drammen. Með sigrinum er Elverum komið með sex stiga forskot á Drammen og Arendal þegar aðeins fimm umferðir eru eftir, en sigurvegari í deildarkeppninni hlýtur nafnbótina Noregsmeistari.

Eftir tímabilið mun Sigvaldi halda til Kielce í Póllandi þar sem hann verður meðal annars liðsfélagi Hauks Þrastarsonar.

Aron Pálmarsson skoraði eitt marka Barcelona sem hélt áfram yfirburðum sínum á Spáni með öruggum sigri á Bidasoa, 31-24.

Rut Jónsdóttir skoraði sömuleiðis eitt mark fyrir Esbjerg sem varð að sætta sig við 26-24 tap gegn Horsens í dönsku úrvalsdeildinni. Esbjerg er þó efst í deildinni, nú með þriggja stiga forskot á næsta lið sem er Viborg, þegar sex umferðir eru fram að úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×