Erlent

„Við erum öll mjög stressuð og hrædd“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þeir sem hafa veikst eru færðir frá borði. Aðrir þurfa að sitja sem fastast.
Þeir sem hafa veikst eru færðir frá borði. Aðrir þurfa að sitja sem fastast. Vísir/EPA

Áhafnarmeðlimur um borð í Diamond Prince skemmtiferðaskipinu sem liggur við höfn í Yokohama Japan í sóttkví vegna Covid19-veirunnar segir að áhafnarmeðlimir séu bæði hræddir og stressaðir vegna ástandsins um borð. Þeir fái ekki sömu meðferð og farþegarnir.

Um 3.700 manns eru um borð í skipinu sem hefur verið í sóttkví eftir að nokkur tilfelli af Covid19-veiruni, nýju kórónaveirunnar sem greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan, greindust um borð. Síðan hefur veiran breiðst út um skipið en alls hafa 175 manns um borð sýkst af veirinni, að því er fram kemur á vef CNN.

Þeir sem smituðust hafa verið sendir á spítala en öðrum er ekki hleypt frá borði og því hafa á fjórða þúsund manns, meirihlutinn farþegar, þurft að hírast um borð frá því 4. febrúar.

Og einhver þarf að sinna farþegunum, sem margir hverjir hafa greitt þúsundir dollara fyrir miðann. Farþegarnir mega ekki fara úr káetunum en áhafnarmeðlimir hafa sinnt sínum störfum eins og venjulega, séð um farþegana og annað sem þarf að gera um borð í skipinu.

Farþegar mega ekki fara frá borði.Vísir/AP

CNN ræddi við Sonali Thakkar, 24 ára gamlan öryggisvörð um borð, og hefur hún meðal annars séð um að fylgja veikum farþegum á meðan þeir yfirgefa skipið. Hún veiktist hins vegar nýlega og hefur verið sett í einangrun.

„Ég borða lítið og hef verið með hita,“ sagði Thakkar í samtali við CNN. „Við erum öll mjög stressuð og hrædd.“

Óttast hún að veiran sé farin að breiðast út á meðal áhafnarmeðlima sem margir hverjir þurfa að deila herbergi með öðrum áhafnarmeðlimum auk þess sem að þeir borða flestir saman í matsal. Fimm hafa þegar smitast.

„Það eru svo margir staðir þar sem við erum saman, ekki aðskilin frá hverju öðru. Sérstaklega í matsalnum þar sem við borðum saman.“


Tengdar fréttir

Tveir þriðju íbúa heimsins gætu smitast af Wuhan-veirunni

Gabriel Leung, prófessor og forseti lýðheilsusviðs í Hong Kong-háskóla og einn helsti sérfræðingur Hong Kong í sóttvarnalækningum, telur að tveir þriðju hlutar mannkyns, eða alls 60 prósent, gætu smitast af Wuhan-veirunni, takist ekki að halda veirunni í skefjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×