Erlent

Dómstóll heimilar sviptingu ríkisborgararéttar Begum

Sylvía Hall skrifar
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum.
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum. Vísir/Getty

Dómstóll í Bretlandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að innanríkisráðherra Bretlands hafi verið heimilt að svipta hina tvítugu Shamima Begum ríkisborgararétti sínum. Begum gekk til liðs við Íslamska ríkið árið 2015, þá aðeins fimmtán ára gömul.

Begum fannst í flóttabúðum í Sýrlandi í febrúar árið 2019 og var hún svipt ríkisborgararétti sínum í sama mánuði. Þá var hún langt gengin með þriðja barn sitt og vildi komast aftur heim til Bretlands. Öll börn Begum hafa látið lífið, það síðasta úr lungnabólgu.

Dómstóllinn sagði yfirvöldum vera heimilt að svipta Begum ríkisborgararétti í ljósi þess að hún væri ekki án ríkisfangs þrátt fyrir sviptinguna. Samkvæmt alþjóðalögum er ólöglegt að svipta íbúa lands ríkisborgararétti ef þeir yrðu án ríkisfangs en Begum gæti fengið ríkisborgararétt í Bangladess vegna uppruna síns.

Begum getur þó áfrýjað niðurstöðunni til hærra dómstigs.

Þrátt fyrir niðurstöðu dómstólsins hefur utanríkisráðuneytið í Bangladess gefið það út að hún sé ekki ríkisborgari landsins. Hún væri jafnframt ekki velkomin þangað og ef hún kæmi til landsins ætti hún yfir höfði sér dauðarefsingu.

„Lög Bangladesh eru mjög skýr. Hryðjuverkamenn eiga yfir höfði sér dauðarefsingu,“ sagði Abdul Momen, utanríkisráðherra Bangladess.


Tengdar fréttir

Dauðarefsing bíður Begum haldi hún til Bangladess

Shamimu Begum, sem komst í fréttirnar fyrr á árinu þegar hún vildi snúa aftur til Bretlands eftir að hafa gengið til liðs við ISIS árið 2015, bíður dauðarefsing haldi hún til Asíuríkisins Bangladess. Begum var í febrúar svipt breskum ríkisborgararétti á grundvelli þess að hún væri einnig bangladesskur ríkisborgari




Fleiri fréttir

Sjá meira


×