Sport

Hilmar Snær kemur heim til Íslands með þrjú gull og eitt silfur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Snær Örvarsson vann þrenn gullverðlaun í ferðinni.
Hilmar Snær Örvarsson vann þrenn gullverðlaun í ferðinni. Mynd/Íþróttasamband fatlaðra

Íslenski skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson var að standa sig frábærlega á Evrópumótaröð IPC í alpagreinum en hann vann fern verðlaun á ferð sinn til Slóvakíu.

Hilmar Snær Örvarsson hefur nú lokið keppni í Slóvakíu en í morgun vann hann sín þriðju gullverðlaun á mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð IPC. Hilmar kom fyrstur í mark í svigkeppninni í morgun með heildartímann 1:50,49 mín. Hilmar vann gull báða svigdagana og einn stórsvigsdaginn en á fyrsta degi hafnaði hann í öðru sæti í stórsvigi.

Eftir öfluga frammistöðu í Jasná í Slóvakíu er Hilmar nú efstur í bæði svigi og stórsvigi á Evrópumótaröðinni. Einar Bjarnason sem hefur verið með Hilmari á mótinu ytra sagði að Hilmar hefði þurft að hafa mikið fyrir gullinu í dag.

„Hann var næstum dottinn í tvígang í seinni ferðinni vegna aðstæðna þar sem snjórinn var mjög mjúkur og blautur. Líkamlegur styrkur hans kom vel að notum þarna þar sem hann stóð af sér bæði höggin,“ sagði Einar Bjarnason í samtali við heimasíðu Íþróttasambands fatlaðra.

Hilmar Snær Örvarsson kemur aftur heim til Íslands á morgun en í lok febrúarmánaðar mun hann síðan keppa í Zagreb í Króatíu þar sem lokamótið í Evrópumótaröðinni mun fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×