Rúmlega 8000 manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í grennd við filippseyska eldfjallið Taal en mikið öskugos hófst í dag. BBC greinir frá.
Taal eldfjallið er næstvirkasta eldfjall Filippseyja og er að finna í samnefndu vatni á eyjunni Luzon, stærstu og fjölmennustu eyju ríkisins. Fjallið er um 65 kílómetrum frá höfuðborginni Maníla.
Íbúum í nágrenni fjallsins hefur verið ráðlagt að verja öndunarfærin með grímum. Þá hafa almannavarnir Filippseyja varað við því að gosið kunni að stigmagnast á næstu vikum og orðið hættulegra íbúum.
Öskuský nær nú rúman kílómetra upp í loft og má sjá á myndbandi hér að neðan hve mikið magn ösku breiðist nú um loftið í nágrenni eldfjallsins.