Erlent

Mótmælum var fram haldið í Íran í dag

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Mótmælum var fram haldið í Íran í dag þar sem krafist er afsagna æðstu embættismanna ríkisins. Bandaríkjaforseti biðlar til íranskra stjórnvalda um að hlífa mótmælendum.

Annar dagur mótmæla fer nú fram í borginni Teheran en fjölmenn mótmæli hófust í gærkvöld. Kallað er eftir afsögnum æðstu embættismanna ríkisins eftir að stjórnvöld í landinu viðurkenndu að úkraínska farþegaþotan hafi verið skotin niður fyrir mistök.

Flestir mótmælenda eru háskólanemar og voru mótmælin brotin upp af lögreglu í gær.

Emírinn í Katar fór á fund forseta Írans í dag og segja þeir að draga verði úr spennunni á milli Írans og Bandaríkjanna.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, kom þeim skilaboðum áleiðis í dag að Bandaríkin muni ekki þola frekari yfirgang frá Írönum. Þá segir hann Bandaríkin tilbúin til að verja þjóðina og segir Bandaríkjaher þann öflugasta í heiminum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, biðlar til íranskra stjórnvalda að drepa ekki mótmælendur og hvetur þá að opna netið að nýju. Í gær skrifaði hann færslur á Twitter þar sem hann hvatti stjórnvöld í Íran til að brjóta ekki upp mótmælin og leyfa fólki að mótmæla friðsamlega.

Sendiherra Bretlands í Íran, Rob Macaire, var viðstaddur mótmælin í gærkvöld. Þar var hann handtekinn en látinn laus skömmu síðar. Samkvæmt breska fjölmiðlinum Daily Mail var hann handtekinn grunaður um að hafa hvatt til mótmælanna. Á Twitter þakkar hann fyrir góðar kveðjur og segir handtökuna brot á alþjóðalögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×