Innlent

Angraði og olli hræðslu meðal gangandi í mið­borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Alls voru vistaðir átta manns á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt vegna ýmissa mála.
Alls voru vistaðir átta manns á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt vegna ýmissa mála. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höguðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi karlmann í miðborginni vegna mikillar ölvunar og að hann hafði ekki farið eftir fyrirmælum lögreglumanna.

Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafði áður verið tilkynntur af vegfarendum þar sem hann var að angra og valda hræðslu meðal gangandi vegfarenda. Segir að hann hafi verið færður á lögreglustöð til vistunar þar vegna ölvunarástands.

Þá segir frá því að annar maður hafi verið handtekinn í miðborginni skömmu eftir klukkan ellefu í gær vegna gruns um líkamsárás. Hann var fluttur í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Á þriðja tímanum í nótt var ökumaður stöðvaður í miðborginni eftir að hafa ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótum. „Maðurinn var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn fyrir sviptur ökuréttindum vegna eldra máls. Maðurinn var færður á lögreglustöð og var laus eftir sýna- og skýrslutöku.“

Lögregla á höfuðborginni þurfti einnig að hafa afskipti af manni sem gerði það að leik sínum að setja flugelda í ruslatunni og valda skemmdum. Var hann kærður fyrir eignaspjöll.

Lögreglumenn í öllum hverfum þurftu að sinna ellefu tilfellum þar sem unglingar voru að valda ónæði með því að nota flugelda á óleyfilegum tíma samkvæmt reglugerð um skotelda (frá kl. 22:00 til 10:00 daginn eftir).

Alls voru vistaðir átta manns á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í gærkvöldi og í nótt vegna ýmissa mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×