Innlent

Halda áfram leit að Rimu

Jóhann K. Jóhannsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Rima er talin hafa fallið í sjóinn við Dyrhólaey.
Rima er talin hafa fallið í sjóinn við Dyrhólaey. Aðsend

Lögregla og björgunarsveitir á Suðurlandi munu halda áfram að leita að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur. Hennar hefur verið saknað síðan fyrir jól en talið er að hún hafi fallið í sjóinn við Dyrhólaey þar sem bíll hennar fannst.

„Við gerum ráð fyrir að fara af stað núna eftir hádegið með einhverja leitarhópa. Við erum að horfa á svæðið frá Þjórsá og austur að Jökulsárlóni, Breiðamerkursandi. Við gerum ráð fyrir því ef allt gengur að óskum að þyrlan frá Landhelgisgæslunni fljúgi meðfram ströndinni þegar það birtir sæmilega upp úr. Svo verður farið með fjörum á þessu svæði,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu.

Tugir björgunarsveitarmanna munu koma að leitinni í dag en að sögn Sveins hefur ekkert verið ákveðið með framhaldið skili leitin ekki árangri.

„Þá munum við bara skoða það í framhaldinu hvenær við tökum aftur svona rennsli hvort það verði eftir viku eða hálfan mánuð en það er ekki búið að ákveða það neitt. Við munum taka umræðu um það eftir daginn í dag,“ segir Sveinn Kristján.

Aðspurður segir hann lögreglu ekki hafa neinar nýjar upplýsingar til að styðjast við í leitinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×