Úrslitakeppni NFL-deildarinnar hefst um helgina og er bæði spilað á laugardegi og sunnudegi. Fyrsta helgin er kölluð „Wild Card-helgin“ en þá spila átta lið en fjögur bestu lið deildarinnar í vetur fá að hvíla.
Veislan hefst annað kvöld klukkan 21.35 er Houston Texans tekur á móti Buffalo Bills. Texans spilað ágætlega í vetur en hefur vantað stöðugleikann. Bills er það lið sem hefur komið einna mest á óvart í vetur og verður áhugavert að sjá hvernig þessi leikur spilast.
Rúmlega eitt um nóttina er komið að meisturum New England Patriots en þeir taka á móti Tennessee Titans. Meistararnir aðeins gefið eftir í vetur en úrslitakeppnin er þeirra tími. Tennessee hefur verið á stöðugri uppleið í allan vetur og hefur engu að tapa.
Sunnudagsleikirnir eru fyrr á ferðinni og það er boðið upp á stórleik klukkan 18.00 er Íslandsvinirnir í Minnesota Vikings sækja New Orleans Saints heim í Superdome.
Síðast er þessi lið mættust í úrslitakeppni þá var það í Minneapolis og þá vann Vikings á „Minneapolis Miracle“ á lygilegum lokakafla leiksins. Í fyrra féll Saints síðan úr leik á dómaraskandal og menn í New Orleans eru reiðir.
Lokaleikur helgarinnar er svo klukkan 21.40 er Philadelphia Eagles tekur á móti Seattle Saehawks. Eagles vann níu leiki en Seattle ellefu en Ernirnir fá heimaleik þar sem þeir unnu sinn riðil sem var sá slakasti í deildinni.
Allir leikirnir í úrslitakeppninni eru í beinni útsendingu á sportrásum Stöðvar 2.
Dagskrá helgarinnar:
Laugardagur:
21.20: Houston - Buffalo á Stöð 2 Sport
01.05: New England - Tennessee á Stöð 2 Sport
Sunnudagur:
17.55: New Orleans - Minnesota á Sport 3.
21.20: Philadelphia - Seattle á Sport 3.
Veislan hefst í NFL-deildinni
