Innlent

Búast við óvissustigi og lokunum á morgun

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Vetrarfærð er nú víða á landinu.
Vetrarfærð er nú víða á landinu. Vísir/Vilhelm

Vegagerðin býst við því að Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði verði á óvissustigi á morgun, laugardag. Komið gæti til lokana á vegunum á milli 9 og 16 vegna veðurs og ófærðar. Þetta gildir einnig um Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði, Hófaskarð, Mývatnsöræfi, Mýrdalssand, Reynisfjall og svæðið undir Eyjafjöllum á milli 12 og 20.

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða éljagangur eða skafrenningur. Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular og gular viðvaranir fyrir landið. Hríðarviðvaranir eri í gildi á öllu landinu fyrir morgundaginn. Að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar verða appelsínugular viðvaranir í gildi á morgun frá klukkan 8 til 15 á Suðurlandi, frá klukkan 9 til 15 á Faxaflóa, frá 11 til 16 á Breiðafirði og á miðhálendinu frá klukkan 11 til 18.

Svona var viðvörunarspá Veðurstofunnar þegar hún var síðast uppfærð klukkan átta í kvöld.Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Í öðrum landshlutum eru gular viðvaranir í gildi á morgun, þó mislengi, sums staðar hluta úr degi en annars staðar allan daginn. Þannig er gul viðvörun í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið frá klukkan 9 til 14. Einnig er gul viðvörun á Vestfjörðum frá 12 til 17 og Ströndum og Norðurlandi vestra frá 12 til 17:30. Á Norðurlandi eystra er gul viðvörun frá 13 til 16:30 og á Austurlandi að Glettingi frá 14 til 17. Á Austfjörðum er gula viðvörunin í gildi frá 14 til 18 en á Suðausturlandi frá 12 til 17.

Síðdegis á morgun hlánar samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands svo gott er að athuga að niðurföllum svo vatn eigi greiða undankomuleið.

Ráðlagt er að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×