Innlent

Ökumenn í vandræðum á Holtavörðuheiði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er ekki mikið skyggni á Holtavörðuheiðinni eins og sést á þessari mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.
Það er ekki mikið skyggni á Holtavörðuheiðinni eins og sést á þessari mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.

Ákveðið var að loka Holtavörðuheiðinni nú síðdegis en hátt í tuttugu bílar voru þá þegar á heiðinni og hafa ökumenn þeirra lent í vandræðum þar vegna ófærðar og veðurs. Björgunarsveitir voru kallaðar út til að aðstoða fólki.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að samkvæmt fyrstu tilkynningu hafi ökumenn þriggja bíla verið í vandræðum á heiðinni en þegar hópar björgunarsveitarfólks fóru svo af stað kom í ljós að mun fleiri ökumenn væru í vandræðum.

Að minnsta kosti sautján bílar hafi þannig orðið á vegi björgunarsveitarfólk sem það hafi komið til aðstoðar. Alls sinna um fimmtán björgunarsveitarmenn útkallinu á fjórum bílum og koma annars vegar úr björgunarsveitinni Húna á Hvammstanga og hins vegar úr sveitinni Heiðar í Borgarfirði. 

Aðspurður um önnur útköll í dag vegna veður segir Davíð að það hafi verið þokkalega rólegt hjá björgunarsveitum í dag. Klukkan fjögur var pakkað saman í aðgerðastjórninni á Suðurnesjum og í Árnessýslu en alls hafa um tíu foktilkynningar borist, meðal annars á Hellu, í Höfn og Hveragerði.

Þá var veginum um Hellisheiði lokað fyrir umferð núna upp úr klukkan 18 og segir Davíð að einhverjar tilkynningar séu farnar að berast um ökumenn í vanda þar. Auk þess var veginum um Þrengsli lokað en áður var búið að loka vegunum um Bröttubrekku, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Klettháls og Víkurskarð.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:26.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×