Erlent

Óttast að stór hluti jökuls hrynji niður fjallshlíðarnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 30 hús hafa verið rýmd við rætur Mont Blanc fjallagarðsins.
Um 30 hús hafa verið rýmd við rætur Mont Blanc fjallagarðsins. EPA/THIERRY PRONESTI

Yfirvöld á Ítalíu hafa rýmt heimili og vísað ferðamönnum á brott frá svæði skammt frá Courmayeur í Aostadalnum vegna ótta um að stærðarinnar stykki úr Planpincieux jöklinum Ítalíumegin við Mont Blanc muni hrynja niður í dalinn. Rýmingarnar hófust í gærmorgun en sérfræðingar hafa varð við því að 500 þúsund rúmmetrar af ís gætu hrunið niður fjallshlíðina.

Þó að um 30 heimili hafi verið rýmd voru mörg þeirra tóm fyrir. Ekki er um marga aðila að ræða en alls var 75 manns vísað á brott. Þar af voru 15 íbúar. Samkvæmt ANSA fréttaveitunni er búið að lýsa yfir sérstöku viðbragðsstigi og á það að standa yfir í þrjá daga.

Heimili á svæðinu voru einnig rýmd í september í fyrra þegar varað var við því að annar stór hluti jökulsins gæti hrunið úr fjallinu.

Guardian segir að sérfræðingar fylgist með 184 jöklum við Aostadalinn en um fjögur þúsund jöklar eru í Mont Blanc fjallagarðinum, hæsta fjallgarði Evrópu á landamaærum Ítalíu, Frakklands og Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×