Körfubolti

Fannst erfiðast að geta ekki hitt móður sína

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James er mömmustrákur mikill, enda ekkert að því.
LeBron James er mömmustrákur mikill, enda ekkert að því. Harry How/Getty Images

Líkt og aðrir leikmenn NBA-deildarinnar fór LeBron James – leikmaður Los Angeles Lakers og einn albesti leikmaður deildarinnar undanfarinn áratug eða svo – í sóttkví þegar deildinni var frestað þann 11. mars vegna kórónufaraldursins.

James býr í Los Angeles þar sem hann leikur með Lakers eins og alþjóð veit. Þar var hann í sóttkví ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum þeirra. LeBron er upprunalega frá Akron í Ohio-fylki og þar býr móðir hans enn. Hann fór því þrjá mánuði án þess að hitta móður sína, Gloriu, sem telst töluverður tími hjá manni sem kalla má mömmustrák, á jákvæðum nótum.

„Það eina sem ég saknaði virkilega á meðan ég var í sóttkví var móðir mín. Þetta er það lengsta sem ég hef farið án þess að hitta móður mína,“ sagði LeBron í viðtali á mánudag. Sports Illustrated.

LeBron hefur áður gefið út að móðir hans sé í raun fyrirmynd hans í lífinu en hann ólst ekki upp í vellystingum. Þá þurftu þau að flytja tólf sinnum á aðeins þremur árum þegar LeBron var fimm til átta ára. Móðir hans var aðeins sextán ára gömul þegar hún eignaðist LeBron og er hann einkabarn. Tenging þeirra er því mjög sterk.

LeBron hefur einnig sagt að Gloria sé ástæðan fyrir því að hann stofnaði I Promise-skólann. Án móður sinnar hefði honum aldrei dottið í hug að opna skólann og gefa þannig börnum sem minna mega sín tækifæri sem þau myndu annars ekki fá.

Sjá einnig: LeBron vonast til að fólk muni eftir sér sem meira en körfuboltamanni

LeBron verður á sínum stað þegar Los Angeles Lakers hefur leik að nýju í Disney World þegar NBA-deildin fer aftur af stað. Spá því flestir að hann muni leiða liði allavega í úrslitaleik Vesturdeildarinnar.


Tengdar fréttir

NBA stjörnur mættar til Orlando

NBA-deildin mun hefjast aftur þann 30. júlí næstkomandi eftir langa bið. Síðasti leikur deildarinnar var leikinn þann 11. mars áður en deildinni var frestað um ókominn tíma vegna Kórónuveirunnar.

LeBron James ætlar ekki að vera með skilaboð aftan á treyjunni

LeBron James þarf vart að kynna enda einn besti körfuboltamaður okkar samtíma og af flestum talinn einn af þeim bestu allra tíma. Hann segist ekki ætla að vera með nein skilaboð aftan á treyju sinni þegar keppni í NBA hefst aftur 30. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×