Salman bin Abdulaziz, konungur Sádi-Arabíu, var lagður inn á sjúkrahús í Ríad vegna bólgu í gallblöðru. Konungurinn, sem er 84 ára gamall, gengst nú undir rannsóknir, að sögn ríkisfréttastofu landsins.
Heimsókn Mustafa al-Kadhimi, forsætisráðherra Íraks, til Sádi-Arabíu var frestað eftir fréttirnar af veikindum konungs, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Salman hefur gegnt embætti konungs frá 2015 en hann var áður krónprins, varaforsætisráðherra og ríkisstjóri í Ríad.
Næstur í valdaröðinni er Mohammed bin Salman krónprins sem stýrir konungsdæminu í reynd. Þrátt fyrir að hann hafi í upphafi vakið athygli fyrir ýmsar umbætur hefur verið gengið hart fram gegn andófsfólki í stjórnartíð hans.
Þá vakti morðið á Jamal Khashoggi, sádi-arabískum blaðamanni og gagnrýnanda stjórnvalda í heimalandinu, í Istanbúl árið 2018 óhug um allan heim. Bandaríska leyniþjónustan telur líklegt að Salman krónprins hafi skipað fyrir um morðið.