Sport

Nokkur met féllu í Laugardalnum í dag

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Líf og fjör í Laugardalslaug um helgina.
Líf og fjör í Laugardalslaug um helgina. Facebook/Sundsamband Íslands

Öðrum degi er lokið á ÍM50 sem fram fer í Laugardalnum um helgina og féllu nokkur met í dag.

Boðsundssveit SH í 4x50m skriðsundi í blönduðum flokki sló eigið met í greininni en það var fyrsti riðill mótsins í dag. Sveitin synti á tímanum 1:39,16 en hana skipuðu þau Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Símon Elías Statkevicius, Dadó Fenrir Jasminuson og Steingerður Hauksdóttir. Gamla metið var 1:39,95 frá því í mars 2019.

Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH setti drengjamet í 50m baksundi þegar hann endaði í öðru sæti á tímanum 29,16 sek. Gamla metið var 29,28 frá því í janúar á þessu ári en það var Birnir Freyr sjálfur sem átti það.

Ylfa Lind Kristmannsdóttir úr ÍBR bætti eigið meyjamet í 50m flugsundi en hún synti á tímanum 32,35 en gamla metið hennar var 32,77 frá því í febrúar.

Róbert Ísak Jónsson bætti Íslandsmetið í fötlunarflokki S14 í 200m flugsundi en hann synti á 2:16,08. Gamla metið var 2:25,93.

Þá setti sveit SH piltamet í 4x100m skriðsundi en þeir syntu á tímanum 3:42,00. Sveitina skipuðu þeir Símon Elías Statkevicius, Daði Björnsson, Veigar Hrafn Sigþórsson og Snorri Dagur Einarsson. Gamla metið átti sveit Ægis frá árinu 2017 - 3:45,89.

Þriðji og síðasti hluti mótsins hefst kl. 16:00 á morgun, sunnudag.

Smelltu hér til að skoða úrslitasíðu mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×