Listasafnið Louvre í París opnaði dyr sínar fyrir gestum á nýjan leik í morgun, fjórum mánuðum eftir að skellt var í lás vegna faraldurs kórónuveirunnar. Forsvarsmenn safnsins segjast eiga von á rólegu sumri, sér í lagi þar sem bandarísku ferðamönnum hefur verið meinað að ferðast til ríkja ESB.
Þrátt fyrir að safnið hafi verið opnað á ný eru enn svæði þar innandyra sem verða áfram lokuð. Svæðum þar sem erfitt gæti reynst að tryggja fjarlægð milli gesta verður lokað, en salir með vinsæl verk á borð við Monu Lisu og ýmsa fornmunum verða opin almenningi. Er áætlað að um þriðjungur safnsins verði áfram lokaður.
Til að draga úr smithættu á fjölmennustu stöðunum er búið að koma fyrir merkingum á gólfi sem ætlað er að tryggja fjarlægð milli fólks. Þá er búið að koma örvum fyrir á gólfinu til að tryggja flæði gesta.
Áætlað er að safnið hafi orðið af um 40 milljónum evra tekjum, rúmum sex milljörðum króna, vegna lokunarinnar.
Takmörkun ferðamanna hefur haft mikil áhrif á safnið en á síðasta ári komu um 70 prósent gesta erlendis frá. Gestir árið 2019 töldu alls um 9,6 milljónir manna.