Innlent

Hafa rök­studdan grun um að eldurinn hafi kviknað af manna­völdum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, á blaðamannafundinum í dag.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, á blaðamannafundinum í dag. Vísir/Vilhelm

„Lögreglan hefur rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, á blaðamannafundi Slökkviliðs og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nú á sjötta tímanum. Hann staðfesti einnig að málið væri flokkað sem sakamál.

Talið er að eldurinn hafi kviknað í vistarverum manns sem búsettur var á þriðju hæð hússins sem kviknaði í við Bræðraborgastíg síðdegis í gær. Maðurinn var handtekinn síðdegis í gær við rússneska sendiráðið en hringt var á lögregluna vegna þess að maðurinn var með ólæti fyrir utan sendiráðið.

Maðurinn var í dag úrskurðaður í viku langt gæsluvarðhald fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Sex einstaklingar voru búsettir á þriðju hæð hússins. Þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn í gær sáust fimm einstaklingar greinilega á þriðju hæð hússins og gripu tveir þeirra til þess að stökkva þaðan út um glugga. Einum var bjargað með stiga en á þeim tíma var ekki hægt að staðsetja hina tvo sem vitað var að voru í húsinu.

Mennirnir fundust síðar í gær og voru úrskurðaðir látnir á staðnum. Alls létust þrír í brunanum. Einn er enn á gjörgæslu, einn er á almennri deild og einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Sá sem er á almennri deild var á gjörgæslu þar til á hádegi í dag.

Ekki hefur verið borið kennsl á hina látnu með óyggjandi hætti og er það nú á borði Kennslanefndar og ríkislögreglustjóra að bera kennsl á hina látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×