Skoðun

Margur heldur mig sig

Erla Björg Sigurðardóttir og Olga Kristrún Ingólfsdóttir skrifa

Valgerður Rúnarsdóttir forstjóri sjúkrahúss SÁÁ og framkvæmdarstjóri lækninga og Einar Hermannsson frambjóðandi til formanns SÁÁ hafa ásakað undirritaðar um rangfærslur og útúrsnúning varðandi þær niðurskurðartillögur sem Valgerðar setti fram á sínum tíma. Þegar betur er að gáð er þessu öfugt farið.

Tillögur Forstjórans

Það er engum blöðum um það að fletta og er skilmerkilega skráð í fundargerð framkvæmdastjórnar SÁÁ frá 4 apríl sl. (sem sjá má hér) að Valgerður Rúnarsdóttir lagði það til að í sparnaðarkyni yrði Vogi lokað í 8 vikur að sumri og sjúklingar á Vík sendir heim um helgar á meðan á meðferð þeirra stæði.

Þá var bent á það að þessar tillögur væru óframkvæmanlegar þar sem þær fælu í sér brot á þeim þjónustusamningi sem SÁÁ hefur gert við sjúkratryggingar Ísalands um þjónustuna á Vík og Vogi auk þess sem slík skerðing á þjónustu við veika alkóhólista kæmi ekki til greina.

Árétting Sjúkratrygginga

Það er ekkert við það að athuga að Sjúkratryggingar Íslands hafi nýlega sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að aðgengi að þjónustu samkvæmt samningum SÍ við SÁÁ verði með sama hætti og verið hefur síðustu sumur. Ágætt að sú stofnun sendi annars slagið út yfirlýsingar um að hún ætli að standa við gerða samninga en það breytir því ekki að 4. apríl lagði Valgerður Rúnarsdóttir fram tillögur um annað, hvað varðar SÁÁ.

Nokkuð sem olli okkur áhyggjum, við skýrðum frá opinberlega frá og höfum, fyrir vikið verið sakaðar um rangfærslur og útúrsnúning. Tillögur Valgerðar náðu ekki lengra þá en það liggur ljóst fyrir að það þarf ábyrga framkvæmdastjórn og formann með bein í nefinu til að standa í vegi þess að tillögur á borð við þessar nái fram að ganga í nánustu framtíð.

Það er því áréttað að undirritaðar hafa ekki stundað rangfærslur eða útúrsnúning. Því er öfugt farið og af því tilefni kemur í hugann máltækið: margur heldur mig sig.

Erla Björg Sigurðardóttir er félagsraðgjafi MA og Olga Kristrún Ingólfsdóttir viðskiptafræðingur MBA fulltrúar í framkvæmdarstjórn SÁÁ.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×