Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur tekið þátt í einni sinni erfiðustu þraut á ferlinum síðustu vikur með því að berjast af fullum krafti fyrir breytingum hjá CrossFit samtökunum.
Katrín Tanja var með þeim fyrstu til að gagnrýna stjórn CrossFit samtakanna og ástæðan fyrir grimmri afstöðu hennar kom enn betur í ljós með afhjúpandi grein í New York Times um helgina.
Katrín Tanja Davíðsdóttir var tilbúin að fórna ferli sínum í CrossFit af því að hún var ekki tilbúin að standa með þeim mönnum sem höfðu stýrt CrossFit svo lengi með karlrembu og kvenfyrirlitningu.
Greinin í New York Times var vissulega ljótur lestur en hún var líka lóð á vogarskálar Katrínar Tönju og fleiri sem heimta alvöru breytingar á stjórn CrossFit.
Fyrsta færsla Katrínar Tönju eftir þessa grein var líka mun léttari og jákvæðari en hinar sem fóru á undan þar sem hún gagnrýndi forystuna harðlega.
Eftir nokkrar vikna ástand þar sem mikið gekk á þá tókst Katrínu Tönju að finna tíma fyrir sjálfan sig um helgina eins og hún segir frá í sinni nýjustu færslu.
„Loksins er mér farið að líða meira eins og ég sjálf aftur. Stór partur af því er að ég tók mér tíma fyrir mig sjálfa. Ég svaf vel, æfði af krafti og nýtti mér vel 22 hljóðlátar mínútur til að slappa af, teygja, anda og vera ég sjálf,“ skrifaði Katrín Tanja.
Hún var líka fljót að fá stuðning frá löndu sinni Anníe Mist Þórisdóttur. „Svooo falleg, nauðsynlegt að fá smá tíma fyrir ÞIG,“ skrifaði Anníe Mist.
Eins og kom vel fram í viðtali Katrínar Tönju Davíðsdóttur á Stöð 2 Sport og Vísi í síðustu viku þá hefur hún tekið þetta erfiða mál inn á sig. Það er því gott að lesa að henni sé að takast að finna ró og sig sjálfa á ný.