Erlent

Norðurkóreskir hermenn sjást við landamærin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Svo virðist sem Norður-Kóreumenn hafi staðið við hótun sína um að senda hermenn að hlutlausa svæðinu á landamærunum við Suður-Kóreu. Frá þessu greindu suður-kóreskir miðlar í dag.

Samskipti ríkjanna á Kóreuskaga hafa versnað til muna síðustu vikur, einkum vegna óánægju Norður-Kóreumanna með að Suður-Kórea skýli norðurkóreskum flóttamönnum. Fyrr í vikunni sprengdu Norður-Kóreumenn byggingu samvinnustofnunnar ríkjanna í loft upp og lofuðu að senda herinn að landamærunum.

Suðurkóreski miðillinn Yonhap greindi frá því í dag að nú hafi sést til norðurkóreskra hermanna á varðstöðvum á hinu herlausa svæði.

Kim Jun-rak, upplýsingafulltrúi ráðs suðurkóreskra hershöfðingja að herinn væri öllu viðbúinn. „Herinn fylgist náið með hreyfingum norðurkóreska hersins og er í viðbragðsstöðu. Hingað til höfum við ekki orðið vör við neitt sem þarf að greina frá.“

Töluverð reiði virðist ríkja í Norður-Kóreu. Í grein sem norðurkóreski ríkismiðillinn Pyongyang Times birti í dag eru suðurkóresk stjórnvöld sögð ill og norðurkóreskir flóttamenn í landinu kallaðir úrþvætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×