Körfubolti

Haukur Helgi fer í nýtt lið

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Helgi Pálsson til varnar gegn Galatasaray í janúar.
Haukur Helgi Pálsson til varnar gegn Galatasaray í janúar. VÍSIR/GETTY

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, mun finna sér nýtt félag til að spila fyrir á næstu leiktíð eftir að samningur hans við Unics Kazan í Rússlandi rann út.

Haukur kom til Unics Kazan síðasta sumar en á samfélagsmiðlum félagsins kemur fram að hann sé á förum frá félaginu, og honum óskað velfarnaðar.

Í samningi Hauks við rússneska félagið var möguleiki á eins árs framlengingu en það var ekki að heyra á Hauki í apríl að hann hefði mikinn áhuga á að vera áfram í Kazan, jafnvel þó að það að fara frá félaginu væri ef til vill áhættusamt á miklum óvissutímum vegna kórónuveirufaraldursins:

„Ég held að margir verði bara ánægðir með að fá vinnu í dag. Ég reyndi að tala við umboðsmanninn minn um þetta um daginn og hann sagðist bara ekki vita hvað hann ætti að segja. Satt best að segja er ég ekki viss um að mig langi að fara aftur til Rússlands. Mig langar ekkert rosalega til að spila fyrir einhvern sem segir manni að fara með hægri fótinn inn í staðinn fyrir vinstri, eða breyta öllum leikstílnum þegar maður er kominn í ryþma. Maður veit ekkert hvað gerist,“ sagði Haukur í hlaðvarpsþættinum Boltinn lýgur ekki, í apríl, greinilega ekki yfir sig hrifinn af þjálfara Unics Kazan.

Unics var í 4. sæti hinnar austur-evrópsku VTB-deildar þegar leiktíðin var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins. Liðið var sömuleiðis komið í átta liða úrslit EuroCup þegar þeirri keppni var aflýst vegna faraldursins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×