Lögregla er búin að finna tvo af þeim þremur Rúmenum sem lýst var eftir í gær vegna gruns um að þeir séu smitaðir af kórónuveirunni. Sá þriðji er enn ófundinn.
Þetta staðfestir Víðir Reynisson í samtali við fréttastofu. Mennirnir komu til landsins fyrir fimm dögum í sex manna hópi og hafa myndir af þeim úr eftirlitsvélum á flugvellinum í Keflavík verið birtar í fjölmiðlum.
Víðir segir að lögreglu hafi tekist að hafa hendur í hári mannanna eftir ábendingar frá almenningi og hafi þeir verið á sitt hvoru hótelinu. Mennirnir komu til landsins síðastliðinn þriðjudag með flugi frá London.
Hinir þrír úr hópnum voru handteknir á föstudag vegna gruns um þjófnað úr verslunum á Selfossi. Við rannsókn málsins kom í ljós að þeir áttu að vera í sóttkví og reyndust tveir þeirra með virk Covid-19 smit. Víðir segir mennina sem nú hafði náðst hafi verið einkennalausir en að þeir hafi verið sendir í sýnatöku.
Mennirnir þrír, sem handteknir voru á föstudag, eru enn í haldi lögreglu og vistaðir hjá lögreglunni á Suðurlandi en þeir verða í dag færðir í farsóttarhúsið á Rauðarárstíg þar sem þeir verða látnir sæta einangrun undir eftirliti lögreglu.
Sextán lögreglumenn eru í sóttkví vegna málsins, þar af ellefu hjá lögreglunni á Suðurlandi.