Erlent

Loka hluta Peking vegna nýrra smita

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Xinfadi-markaðnum í kínversku höfuðborginni Peking.
Frá Xinfadi-markaðnum í kínversku höfuðborginni Peking. Getty

Kínversk yfirvöld hafa lokað ellefu íbúahverfum í höfuðborginni Peking vegna nýrra smittilfella í borginni sem rakin er til matarmarkaðar í nágrenninu.

Alls er búið að loka níu skólum og leikskólum á svæðinu sem um ræðir.

Ákveðið var að loka Xinfadi-markaðnum aðfaranótt laugardagsins að staðartíma eftir að tveir starfsmenn kjötrannsóknarstofnunar greindust með kórónuveirusmit eftir að hafa nýlega tekið út markaðinn.

Óttinn við aðra smitbylgju er mikil í flestum þeim löndum þar sem búið er að ná tökum á faraldrinum. Á það einnig við um Kína þar sem kórónuveiran greindist fyrst.

Áður höfðu kínversk yfirvöld stöðvað viðskipti með nauta- og lambakjöt á Xinfadi-markaðnum, sem og fjölda annara matvörumarkaða.

Til stendur að skima um 10 þúsund manns vegna nýju smittilfellanna sem tengjast Xinfadi og þá munu nálægir skólar ekki hafa opið eftir helgi líkt og til stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×