Tæplega 42.000 manns hafa nú látið lífið í kórónuveirufaraldrinum í Brasilíu sem fór þannig fram úr Bretlandi í fjölda dauðsfalla vegna Covid-19. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látist í faraldrinum til þessa.
Þrátt fyrir þetta segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að brasilíska heilbrigðiskerfið anni álaginu miðað við þau gögn sem hún hefur undir höndum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Á fáum svæðum sé meiri en 80% nýting á gjörgæslurými.
Alls hafa nú tæplega 829.000 manns smitast af nýju afbrigði kórónuveirunnar í Brasilíu og 41.828 látist. Um 1.200 manns hafa látist á dag frá því á þriðjudag en engu að síður er byrjað að slaka á sóttvarnaaðgerðum víða um landið. Heilbrigðisráðuneytið greindi frá 909 nýjum dauðsföllum í dag.
Jair Bolsonaro, forseti, hefur grafið undan aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar og gert lítið úr alvarleika faraldursins. Í gær hvatti hann stuðningsmenn sína til þess að lauma sér inn á sjúkrahús landsins og taka myndir til að ganga úr skugga um hvort að verið sé að nýta gjörgæslurými. Myndirnar ættu þeir að senda lögreglunni og leyniþjónustunni til rannsóknar.