Mótmæli héldu áfram í nótt í Bandaríkjunum þrátt fyrir útgöngubann í fjölda borga. Að þessu sinni fóru aðgerðirnar þó að mestu friðsamlega fram en þetta er áttunda nóttin í röð þar sem fólkið mótmælir lögregluofbeldi í kjölfarið á morðinu á George Floyd í Minneapolis í Minnesota.
Þúsundir komu saman í Houston í Texas í kröfugöngu og þar voru fjölskyldumeðlimir George Floyd á meðal göngumanna.
Trump forseti hefur hótað að beita hermönnum gegn mótmælendum og um sextán hundruð slíkir hafa verið sendir til höfuðborgarinnar Washington þar sem þeir eru í viðbragðsstöðu.
Í Buffalo í New York ríki hefur kona verið ákærð fyrir að stofna lífi lögreglumanna í hættu en á mánudagsnótt ók hún bíl sínum inn í hóp þeirra og eru þrír slasaðir.
Óttast að kórónuveiran taki stökk
Sérfræðingar óttast að mótmælaaldan verði til þess að kórónuveirufaraldurinn taki kipp upp á við en AP fréttastofan greinir frá því að fjöldamótmæli hafi farið fram í öllum þeim 25 borgum í Bandaríkjunum þar sem nýsmit kórónuveirunnar hafa verið flest síðustu daga.
Því er óttast að nýjum smitum á svæðunum eigi eftir að fjölga enn meira. Nú eru staðfest smit í Bandaríkjunum 1.8 milljónir og um 106 þúsund manns hafa látið lífið af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem veiran getur valdið.