Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.
Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 14 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.
Valsmenn luku 99. tímabili sínu í efstu deild síðasta haust og sumarið í ár er því tímamótatímabil á Hlíðarenda. Þeir munu hefja hundraðasta tímabil sitt í efstu deild þegar KR-ingar koma í heimsókn til þeirra í opnunarleik mótsins.
Valsmenn verða þar annað íslenska félagið á eftir KR til að spila hundrað tímabil í efstu deild. Hundraðasta tímabil KR-inga var sumarið 2014.
Framarar voru langt á undan Valsmönnum þegar þeir féllu úr deildinni árið 2014. Framarar hafa spilað í b-deildinni síðan og á sama tíma hafa Valsmenn komist upp fyrir þá.
Fyrsta tímabil Valsmanna var 1915 og þér léku í deildinni til 1919. Valur var ekki með frá 1920 til 1922 en misstu síðan ekki úr tímabil í efstu deild frá 1923 til 1999 þegar þeir féllu í fyrsta sinn.
Valsliðið fór upp og niður á næstu árum en hefur síðan spilað meðal bestu liða landsins frá og með 2005 tímabilinu eða undanfarnar fimmtán leiktíðir. Sumarið 2020 verður því sextánda sumar Valsliðsins í röð í úrvalsdeild karla.
Valsmenn hafa oftast endað í fyrsta sætinu því þeir hafa verið Íslandsmeistarar 22 sinnum. Valsliðið hefur síðan átján sinnum endað í bæði þriðja og fimmta sætið og þá hafa Hlíðarendapiltar fengið silfurverðlaunin á sautján tímabilum í efstu deild.
Valsmenn hafa aðeins endað neðar en fimmta sæti á 11 af 99 tímabilum eða ellefu prósent leiktíða sinna í efstu deild. Eitt af þeim tímabilum var í fyrra þegar Valur endaði í sjötta sæti.
Flest tímabil í efstu deild á Íslandi:
- 1. KR 106
- 2. Valur 100
- 3. Fram 98
- 4. Víkingur R. 69
- 5. ÍA 67
- 6. Keflavík 52
- 7. ÍBV 51
- 8. FH 36
- 9. Breiðablik 35
- 10. Fylkir 23
- 11. Grindavík 20
- 11. ÍBA 20
- 13. Þróttur R. 19
- 14. KA 18
- 14. Stjarnan 18
Sæti Valsmanna á 99 tímabilum í efstu deild:
- Íslandsmeistarar - 22 tímabil (Síðast 2018)
- Silfurverðlaun - 17 tímabil (2005)
Þriðja sæti - 18 tímabil (2006) - Fjórða sæti - 13 tímabil (1994)
- Fimmta sæti - 18 tímabil (2016)
- Sjötta sæti - 2 tímabil (2019)
Sjöunda sæti - 2 tímabil (2010) - Áttunda sæti - 4 tímabil (2012)
- Níunda sæti - 2 tímabil (2001)
- Tíunda sæti - 1 tímabil (2003)