Erlent

Sex látnir í fangaóeirðum á Ítalíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Fangar klifruðu upp á þakið á San Vittore-fangelsinu í Mílanó og héldu á laki sem þeir höfðu letrað á „Náðun“.
Fangar klifruðu upp á þakið á San Vittore-fangelsinu í Mílanó og héldu á laki sem þeir höfðu letrað á „Náðun“. AP/Antonio Calanni

Óeirðir brutust út í á þriðja tug fangelsa á Ítalíu vegna aðgerða sem er ætlað að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar. Sex fangar létu lífið eftir að þeir brutust inn í sjúkrastofu og tóku of stóran skammt af kvalastillandi lyfi.

Fjölskylduheimsóknir í fangelsi hafa verið bannaðar til þess að koma í veg fyrir að kórónuveiran breiðist út í yfirfullum fangelsum landsins. Fangar eru afar ósáttir við ráðstafanirnar og létu hug sinn í ljós með óeirðum í dag og í gær.

Í stærstu óeirðunum í Modena kveiktu fangar í dýnum og sex létust þegar þeir tóku of stóran skammt af lyifi sem er gefið vegna ópíóíðafíknar, að sögn AP-fréttastofunnar. Í San Vittore-fangelsinu í Mílanó klifruðu fangar upp á þak og héldu á lofti laki sem á stóð „Náðun“.

Fangelsismál á Ítalíu hafa verið í ólestri lengi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sektað landið fyrir slæman aðbúnað í fangelsum. Ítölsk fangelsi eru jafnframt yfirfull. Í sumum þeirra eru fangar hátt í tvöfalt fleiri en þau eru hönnuð til að hýsa.

Kórónuveiran hefur breiðst hratt á Ítalíu undanfarnar vikur og hafa 366 manns látið lífið af völdum hennar. Yfirvöld settu á umfangsmiklar ferðatakmarkanir fyrir um sextán milljónir íbúa í Langbarðalandi og nokkrum héruðum á Mið- og Norður-Ítalíu um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×