Erlent

Mögu­lega nauð­syn­legt að fá að­stoð hersins vegna kórónu­veirunnar

Sylvía Hall skrifar
Vladímír Pútín.
Vladímír Pútín. Vísir/Getty

Vladímír Pútín Rússlandsforseti segir mögulega þörf á því að nýta herinn í baráttunni við kórónuveiruna eftir að mikil aukning varð í greindum smitum. Í Moskvu er útgöngubann í gildi og má fólk einungis fara út til þess að kaupa mat, sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu eða mæta til vinnu ef þörf er á. Reuters greinir frá.

Fleiri svæði í Rússlandi hafa einnig sett á útgöngubann en í dag var greint frá mestu fjölgun smita milli daga í Rússlandi. 2.558 ný tilfelli voru staðfest í dag og er því heildarfjöldi smita 18.328. Flestir þeirra smituðu eru búsettir í Moskvu.

Þá hvatti Pútín ríkisstjóra landsins til þess að grípa til aðgerða fyrr en seinna. Hann gagnrýndi seinagang á sumum stöðum, sem hann sagði hafa leitt til þess að veiran hefði náð að breiðast út. Það þyrfti þó að nýta tímann vel, sérstaklega á þeim stöðum þar sem smit hefðu ekki verið staðfest.

„Þessi auka tími getur horfið hratt, það á ekki að eyða honum hugsunarlaust, hann verður að vera nýttur á sem skilvirkastan máta,“ sagði Pútín og bætti við að yfirvöld mættu ekki slaka á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×