Erlent

Þakkar heilbrigðisstarfsfólki fyrir að hafa bjargað lífi sínu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er útskrifaður af gjörgæslu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er útskrifaður af gjörgæslu. Vísir/EPA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem nýverið var lagður inn á gjörgæslu með Covid-19, segist eiga heilbrigðisstarfsfólki í Bretlandi mikið að þakka. Það hafi hreinlega bjargað lífi hans.

Í yfirlýsingu sem gefin var út af skrifstofu ráðherrans, er heilbrigðisstarfsfólki á St. Thomas-spítala í London þakkað fyrir að annast Johnson, en hann var lagður inn á gjörgæslu vegna alvarlegra veikinda sinna af Covid-19 síðastliðinn sunnudag. Hann eyddi þar þremur nóttum en fór þó aldrei í öndunarvél og er nú á batavegi.

„Ég get ekki þakkað þeim nægilega fyrir. Ég á þeim líf mitt að launa,“ segir meðal annars í yfirlýsingu forsætisráðherrans.

Þrátt fyrir að vera orðinn betri af veikindum sínum hefur Johnson ekki snúið aftur til starfa sem forsætisráðherra, og ekki liggur fyrir hvenær af því verður. Þessa stundin einbeitir hann sér að því að ná fullum bata. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, sinnir störfum forsætisráðherra á meðan, að ósk Johnson.

Þegar þetta er skrifað hafa rétt tæplega 79 þúsund tilfelli kórónuveiru verið staðfest í Bretlandi. 9875 hafa þá látist af völdum Covid- 19, sjúkdómnum sem veiran veldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×