Innlent

Breikkun í Mosfellsbæ boðin út og á að klárast fyrir jólin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegarkaflinn er núna þriggja akreina án vegriðs á milli akstursstefna. Lágafell er til hægri.
Vegarkaflinn er núna þriggja akreina án vegriðs á milli akstursstefna. Lágafell er til hægri. Vísir/KMU.

Breikkun Vesturlandsvegar um Mosfellsbæ í fjórar akreinar, milli Skarhólabrautar og Langatanga, skal að fullu lokið eigi síðar en 1. desember næstkomandi, samkvæmt útboðsauglýsingu Vegagerðarinnar, sem birt var í gær. 

Þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar. Lengd vegarkaflans er 1,1 kílómetri en til að koma fyrir fjórum akreinum þarf bergskeringar inn í Lágafell auk annarra skeringa. Ennfremur á að skilja að akstursstefnur með vegriði.

Tilboðsfrestur rennur út 5. maí. Ætla má að það verði vart fyrr en í júní, sem búið verður að semja við verktaka, sem hefði þá innan við sex mánuði til að ljúka verkinu.

Deiliskipulag Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ milli Skarhólabrautar og Reykjavegar.Mosfellsbær/VSÓ Ráðgjöf.

Efni sem fæst úr bergskeringum verður nýtt í hljóðmanir við veginn. Einnig á að byggja hljóðvarnarveggi á steyptum undirstöðum og klæða með semtentsbundnum trefjaplötum. Þá felst í verkinu gerð biðstöðvar fyrir Strætó með tilheyrandi stígatengingum.

Innifalið er einnig gerð gangstíga, gróðursetning 280 trjáa og runna, uppsetning 60 ljósastaura og öll nauðsynleg lagnavinna, og frágangur yfirborðs raskaðra svæða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×