Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir miðnætti í nótt til að leita tveggja fjórhjólamanna við Drangajökul. Beiðni barst eftir að æfingu þyrlusveitar og áhafnar varðskipsins Þórs var nýlokið í Ísafjarðardjúpi um að þyrla Landhelgisgæslunnar færi til leitar að fjórhjólamönnunum.
Mennirnir áttu að hafa farið frá Steingrímsfjarðarheiði í átt að Drangajökli fyrr um daginn. Björgunarsveitir á svæðinu voru einnig kallaðar út.
Flogið var frá Ísafirði yfir Snæfjöll, inn í Hrafnsfjörð yfir Skorarheiði og niður í Furufjörð og inn í Reykjafjörð. Leitað var á Fossadalsheiði, ofan í Bjarnarfjörð, inn að Drangajökli og til suðausturs um heiðina. Aðstæður voru góðar með nætursjónaukum sem alla jafna eru notaðir við leit sem þessa í myrkri.
Eftir tæplega klukkustundarlanga leit var upplýst að mennirnir væru komnir í leitirnar og hélt þyrla gæslunnar þá aftur til Reykjavíkur.