Útilit er fyrir að tímamóta frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými verði að lögum á yfirstandandi þingi. Þingmaður Pírata vonar að þetta leiði til þess að hennar frumvarp um afglæpavæðingu neyslu og vörslu allra fíkniefna verði einnig afgreitt á vorþingi.
Frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými má rekja allt aftur til ályktunar Alþingis um þessi mál frá árinu 2014. Svandís Svavarsdóttir lagði fyrst fram frumvarp um málið á þingi síðasta vetur en velferðarnefnd ákvað að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Nú lítur hins vegar út fyrir að þetta sögulega frumvarp verði að lögum.

Fulltrúar flokkanna í velferðarnefnd gera minniháttar breytingar á frumvarpinu og skila samdóma áliti um að það verði samþykkt á Alþingi. Ólafur Þór Gunnarsson fulltrúi Vinstri grænna í velferðarnefnd og læknir mælti fyrir nefndarálitinu í upphafi annarrar umræðu um frumvarpið í dag.
„Með frumvarpinu er lagt til að embætti Landlæknis geti veitt sveitarfélögum heimild til að stofna og reka neyslurými. Þar sem varsla og meðferð ávana- og fíkniefna í æð er heimil undir eftirliti starfsfólks aðuppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meðal annars varðandi hollustuhætti, öryggi og eftirlit,“ sagði Ólafur Þór.

Halldóra Mogensen þingmaður Pírata er einnig flutningsmaður á öðru frumvarpi um neytendur ólögegra vímuefna. Þar er lagt til að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna verði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott og þannig tryggt að neytendum efnanna verði ekki refsað fyrir vörslu neysluskammta og neyslu þeirra. Frumvarp hennar og þingmanna fimm flokka af átta á Alþingi liggur tilbúið í nefnd með nefndaráliti.
„Ég vona að við séum á þessari vegferð núna og samþykkt þessa frumvarps sé fyrsta skrefið í átt að því að afglæpa hér vörslu neysluskammta almennt yfir allt samfélagið. Að við séum komin á þá vegferð að okkur sé raunverulega alvara með það að fara í skaðaminnkun og í stað þess að refsa og jaðarsetja fólk að við séum að hjálpa fólki að ná bata,“ segir Halldór Mogensen.